top of page
Search

The story about Saga

Myndir sem fylgja eru ekki fyrir viðkvæma!

Saga er undan Sjöfn frá Akranesi og Krák frá Blesastöðum. Um miðjan júní þegar Saga var veturgömul var Jón að vitja hrossanna sem gengu enn á hluta af túnunum á Litlu-Fellsöxl. Sá hann þá að Saga stóð svolítið frá hinum og hímdi. Það var eins og ljós hólkur um annan sköflunginn að aftan og Jón hélt að eitthvað hefði húkkast upp á fótinn á henni. Þegar nær kom sá hann að þetta var bert beinið. Skinnið og það litla hold sem er fyrir neðan hækil hafði sigið niður á kjúku og sprautaðist blóðið út við hvern hjartslátt.

Hann hringdi strax í Gunnar Gauta dýralækni í Borgarnesi sem kom eins fljótt og hann gat. Hann hringdi líka í Kidda Helga sem kom og þeir stöðvuðu blæðinguna með því að binda jakka um fótinn. Gunnar Gauti gat ekkert gert þarna úti á túni og mælti með að flytja hana suður þar sem betri aðstaða væri. Þeir komu henni upp á kerru og brenndu suður til Björgvins Þórissonar dýralæknis.Þetta lei vægast sagt mjög illa út. Sinin að framan alveg í sundur og sinar að aftan mjög illa skaddaðar. Björgvin svæfði tryppið og var í 2-3 klukkutíma að tjasla þessu saman. Ekki tókst að ná saman sininni að framan. Svo var hún sett í álspelku og umbúðir frá hækli niður úr. Síðan keyrði Jón með hana heim á Skagann. Fyrstu dagana át hún sáralítið, lá mikið og var eflaust sárkvalin. Við þurftum að hjálpa henni á fætur fyrst en mjög fljótt komst hún upp á lagið að standa upp þó hún tyllti ekki í fótinn. Eftir viku kom Björgvin, svæfði hana og skipti um umbúðir. Smátt og smátt fór hún að éta svolítið meira og við vorum endalaust að reyna að finna eitthvað til að koma ofan í hana. Við keyptum folaldaköggla, en það tók nokkrar vikur að fá hana til að éta þá en svo varð hún alveg vitlaus í þá. Fyrst kom Björgvin vikulega til að skipta um umbúðir, en fljótlega fór hann að lengja tímann – enda ekki gott að þurfa að svæfa hana svona oft. Um það bil mánuði eftir slysið var sett plata neðst á álspelkuna sem hélt hófnum í réttum gráðuhalla og svo voru settar umbúðir sem líkjast gifsi. Svo var bara að bíða og vona að sinarnar og sárin gréru. Hún var inni í stíu og mátti alls ekki fara út úr henni. Við vorum með hesta á húsi henni til samlætis allan tímann, en ekki alltaf þá sömu.

Þremur mánuðum eftir slysið tók Björgvin spelkuna af og þá leit þetta bara nokkuð vel út, nema mikil ofholdgun á tveimur stöðum. Á lófastórum bletti (stórum lófa!) framan á sköflungunum og neðarlega að aftan þar sem spelkan hafði nuddað hana. Þar var eins og risa sveppur sem Björgvin skar af og blæddi mikið úr. Þá tók við þolinmæðisvinna að stoppa ofholdgunina með því að rúlla daglega yfir ofholdgunina með vítisteins-pinnum. Nú var hún byrjuð í sjúkraþjálfun sem fólst í því að teyma hana daglega eftir hesthúsganginum og smá fjölga ferðunum. Hún var draghölt en byrjuð að tylla í fótinn. Í lok september fórum við setja hana aðeins út í gerði. Hún varð að vera undir eftirliti svo hún nagaði ekki sárið, en það átti helst að vera umbúðalaust þegar þarna var komið. Um miðjan október fórum við með hana suður til Björgvins og hann brenndi fyrir ofholdgunina með einhverju sem leit út eins og lóðbolti. Þá hætti hún að reyna að naga sárið og fljótlega fórum við að sleppa henni út í nokkra klukkutíma á dag. Jón girti alveg sérvalið tún fyrir hana og þar gekk hún með Von, folaldinu hennar og fósturfolaldinu undan Regínu. Í byrjun nóvember fór hún að vera úti allann sólarhringinn og var útskrifuð frá Björgvin.


Það tók okkur svolítinn tíma að fatta hvernig þetta slys hafði átt sér stað. Um hundrað metrum frá þeim stað sem hún stóð þegar Jón fann hana, var rafmagnsgirðing (einn strengur). Þar hefur hún velt sér of nálægt strengnum og hann húkkast í lykkju um fótinn á henni. Girðingin dróst til á ca. 200 m. kafla og næstu staurar brotnuðu þó nýir væru. Hún hefur brotist um þangað til hún losnaði með beran fótlegginn, síðan hefur hún trúlega fælst strax þessa 100 metra leið. Þetta hefur örugglega verið nýskeð þegar Jón fann hana, því henni hefði blætt út á skömmum tíma.

Hún er enn hölt, en alveg ótrúlega lítið. Hún hleypur um og fer bæði á brokki og tölti, stór og falleg og ánægð með sig! Hún verður aldrei tamin og sýnd, en við höfum mikla trú á henni sem kynbótahryssu. Óhætt er allavega að segja að þetta lofar góðu þar sem hennar elsta afkvæmi, Sögn frá Skipaskaga, var sýnd sl. sumar þá 4ra vetra og fékk hún í aðaleinkunn 8,18. Við trúum því að Saga eigi eftir að marka spor í sögu hrossaræktarinnar frá Skipaskaga!

Sögn frá Skipaskaga


bottom of page